Emilía Þórný og Anna Soffía

miðvikudagur, október 26, 2005

Viðburðarríkur dagur

Við Emilía fórum í síðasta tímann í ungbarnanuddi í dag og hún fékk "helkroppsmassage" og líkaði það vel. Svo fórum við beint þaðan að hitta Lindu og son hennar Theo á Öppna Förskolan. Þar gerðum við afsteypu af litlu höndunum og fótunum þeirra í gifs, sungum með hinum börnunum og Emilía fékk að sitja í barnastól við borð í fyrsta skipti. Síðan kom hún mér skemmtilega á óvart með því að snúa sér frá baki yfir á maga í fyrsta skipti og Linda varð vittni af því, þannig að ég er ekkert að plata. Þar að auki tókst henni að gera eftirfarandi og geri aðrir betur: kúka í rúmið okkar, pissa á handklæðið í ungbarnanuddinu, æla á bolinn sinn, kúkaði svo tvisvar á leikteppið sitt (var að viðra bossann) og pissaði í gegnum allt í vagninum sínum!! Þvottakarfan er full núna...

þriðjudagur, október 25, 2005

Helgarferð til Sundsvall


Við mæðgur skildum Óla eftir í Stockhólmi um helgina á meðan við fórum í stutta helgarferð til Sundsvall. Þar heimsóttum við Malin, Marcus og 7 mánað dóttur þeirra Sophie. Vorum samferða Önnu-Åsu og dóttur hennar Ester og svo kom Camilla með fjölskyldu frá Vasteras och Angelina og Thomas lika. Þetta var heilmikið fjör, 8 fullorðnir og 5 börn en við náðum samt að gera margt skemmtilegt. Emilía var algjör engill, kvartaði aldrei þrátt fyrir 5 tíma keyrslu fram og tilbaka, mikið af nýju fólki, nýjar svefnrútínur og stöðug læti. Þó svo að hún væri vakin um miðnætti bæði kvöldin, dúðuð og sett í bílstólinn kvartaði hún aldrei heldur horfði bara í kringum sig og sofnaði svo aftur þegar heim var komið (gistum ekki hjá Malin heldur hjá foreldrum Önnu-Åsu). Það átti enginn til orð yfir því hvað hún var mikið fyrirmyndarbarn og örugg með sig. Hér fyrir ofan er mynd af Gun, mömmu Malinar, og Kerstin, frænku hennar, að passa stelpurnar okkar þær Ester (dökkhærð), Sophie og Emilíu á meðan við fengum að baka einhvers konar hrökkbrauð eftir kúnstarinnar reglum í gömlum viðarofni.

miðvikudagur, október 19, 2005

Nenni ekki að hanga hér, vil ferðast og skemmta mér...

Það er greinilegt að Emilíu líkar ekki við neina lognmollu. Það hefur reyndar verið frekar greinilegt frá því að hún fæddist, vildi alltaf láta ganga með sig svo hún gæti séð það sem var í kringum hana. Kann alltaf vel við sig innanum fólk og getur þá dundað sér ein þegar eitthvað er að gerast í kringum hana. Núna er ég líka farin að taka eftir því að ef ég er ein heima með hana, þá sættir hún sig ekki við að ég setjist með kaffibolla og Moggann, þótt hún sé úthvíld og ný búin að borða, þá fer hún strax að kvarta, og ekkert annað að gera fyrir mig enn að koma mér af rassinum og fara að vaska upp, ryksuga, eða eitthvað annað sem felur í sér hávaða og hreyfingu, að sitja fyrir framan tölvuna telst greinilega ekki til alvöru vinnu og því er það ekki samþykkt. Að rabba í síma er hins vegar leyfilegt, þótt það sé í upp undir klukkutíma :=)

sunnudagur, október 16, 2005

Tásurnar fundnar

Emilía hefur verið að virða fyrir sér tásunum sl. vikur. Fyrst tók hún helst eftir fótunum ef þeir voru í einhverjum flottum sokkum en smám saman fór hún að reyna að grípa í þá. Nú er hún komin með tæknina á hreint og nær góðu taki á táslunum hvenær sem er, en samt oft á skiptiborðinu og á leikteppinu.

föstudagur, október 14, 2005

Sunddrottning með marga svipi

Ég fór með Emilíu í fyrsta tímann í ungbarnasundnámskeiðinu í dag og það var ofsalega gaman. Eins og mig grunaði þá var hún eins og hafmeyja í vatninu og fannst þetta voðalega spennandi. Hún var meira að segja fyrir valinu þegar sundkennarinn vildi sýna öllum hópnum hvernig við ættum að gera og hún var voðalega stollt, reyrði höfuðið upp eins og lítill selur og horfði spennt í kringum sig. Í næsta tíma á hún svo að kafa! Því miður voru engar myndir teknar í þetta sinn, en kanski Óli komi með einhvern tíman og þá verðum við að festa þetta á filmu. Hér fyrir ofan eru hins vegar nokkrar myndir teknar í gær af svipum hennar.

fimmtudagur, október 13, 2005

Að snúa sér?

Þá er stóra spurningin, er Emilía farin að snúa sér eða ekki??? Það fer eftir því hvernig það skilgreinist. Já, hún snéri sér algjörlega óvart frá maga yfir á bak í síðustu viku. Varð voða hissa og svo var það ekki endurtekið aftur... Hún fór fyrir rúmum mánuði að snúa sér frá baki yfir á hlið til að teygja sig í dót eða horfa aftur fyrir sig (sjá mynd), en höndin sem er nær gólfinu er alltaf í 90 gráðu vinkli frá líkamanum þannig að hún fer aldrei alla leið yfir á maga. Við bíðum spennt eftir að hún finni út úr þessu.

þriðjudagur, október 04, 2005

4 mánaða !

Emilía á 4 mánaða afmæli í dag, og okkur finnst tíminn fljúga. Sjálfri finnst mér eins og ég sé að lifa í framtíðinni, hvað gerðist? Skyndilega á maður barn og það er ekki nýfætt heldur 4 mánaða gamallt! Tók mynd af henni til að skjalfesta daginn, myndin að ofan er sem sagt splunkuný, tekin kl. 18:34 þriðjudaginn þann 4. október.

Við skiluðum vöggunni sem við fengum í láni hjá Ingibjörgu frænku á sunnudag og fengum í staðinn lánað rimlarúmið hennar Sögu. Emilía hefur núna sofið í því í tvær nætur og líkar greinilega mjög vel, því hún tók upp á því fyrstu og aðra nóttina að vakna ekkert til að drekka heldur svaf frá 21:30 til 7:00 báðar næturnar. Það má taka fram að það hefur ALDREI gerst áður en við vonum að þetta sé frekar orðin regla en undantekning :=)