Emilía Þórný og Anna Soffía

föstudagur, apríl 28, 2006

Í dag er komið sumar

Í morgun er búið að vera frábært veður hérna á íslenskan mælikvarða eða 10 gráður og sól meira að segja. Það er meira segja talað um að í dag verði hitametið slegið Við Emilía byrjuðum daginn að skreppa upp í bakarí og ætluðum að kaupa brauð fyrir endurnar blessaðar í Laugardalnum. Þessi íslensku bakarí eru alveg æði, við gátum fengið 7 kg. af brauði gefins ef við vildum. Þetta gerðist nú aldrei í Sverige enda eru dagsgömul brauð hátt verðlögð, eða á fullu verði fram á síðasta söludag. Við vorum nú bara hæversk og tókum 1/2 kg og töltum okkur svo niður í Laugardalinn og gáfum öndum, gæsum og dúfum brauð. Þeirri litlu fannst það sko gaman en hún varð að fá bita öðru hvoru eins og hinir fulgarnir. Núna sefur þessi elska og þá getur maður loksins sett í þvottavél og ryksugað sinnt sumarstörfunum eins og að þvo gluggana að utanverðu.
Því miður er engin mynd að þessu sinni, batteríið í myndavélinni fór í hleðslu í morgun og var ekki klárt annars hefði verið hér mynd af Emilíu með fuglunum.

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Flutt og komin með eigið herbergi



Emilía Þórný flutti nú um helgina úr Álfheimum 22 í Álfheima 22, sem sagt af efri hæðinni niður í kjallaríbúðina sem að ég er búinn að vera að gera í stand frá því í byrjun mars. Emilía er komin með eigið herbergi þar og svaf þar í fyrsta skipti núna frá sunnudegi til mánudags. Það gekk vonum framar, við Íris sáum fyrir okkur andvökunætur þar sem hlaupið væri fram og tilbaka milli herbergjanna okkar. Það varð ekki raunin þar sem að hún hefur sofið vel báðar næturnar þessi elska. Emilía stendur nú upp við borð og stóla og er farin að fikra sig á milli staða. Það líður eflaust ekki á löngu þar til að hún fari að sleppa sér og láti reyna gönguhæfnina. Hún er farin að taka aðeins meiri sénsa núna og dettur svona 2-3svar á dag núna með tilheyrandi gráti og gnístran tanna. En hún er fljót af á stað aftur. Eitthvað hefur verið kvartað undan myndaleysi á myndasíðunni hennar en það stendur allt til bóta. Ég set inn myndir mjööööög fljótlega :-D. Læt hér fylgja með eina frá því um páskana frá sumarbústaði ömmu og afa. Það mætti kalla þessa mynd "Unga stúlkan og útsýnið". Henni fannst alveg frábært að standa upp við gluggasylluna og horfa á útsýnið en aðallega voru það flugurnar sem að skemmtu henni.
//Óli

laugardagur, apríl 08, 2006

10 mánaða pæja

Emilía er núna orðin 10 mánaða og er alger orkubolti sem vill alltaf vera annars staðar en hún er þá stundina. Hún er að sjálfsögðu komin með 4 tennur og fleiri eru á leiðinni, hún er farin að standa upp við hluti (m.a. í rúminu sínu), talar heilmikið á "Emilísku" en á mannamáli kann hún að segja mamma, afa, datt og takk (2 síðustu eru um það bil eins). Ég reyni þó að kenna henni að segja pabbi en það kemur bara mamma út. Hún er mjög músíkölsk stelpan og hefur gaman af því að hlusta á músík, hvort sem það sé í útvarpinu eða við foreldrarnir sem að spila á píanó, gítar eða munnhörpu. Hún situr þá og dillar sér í takt við músíkina. Auðvitað spilar hún síðan sjálf á píanóið og gítarinn en hefur ekki náð tökum á munnhörpunni ennþá
Annars í öðrum fréttum þá erum við búin að vera í 1 og 1/2 mánuð á Íslandi og geri aðrir betur. Íbúðin okkar í kjallaranum er alveg að verða tilbúin til innflutnings, bara eftir að leggja parket á eldhús, setja borðplötu, baðskáp,....öhhhhh...það eru nú þó nokkur smáatriði eftir en við stefnum á að flytja helgina eftir páska.

föstudagur, apríl 07, 2006

Áskorun svarað

Begga skoraði á mig og ég gat nú ekki skorast undan...
Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina

1. Landmælingar. Ég vann sem ökumaður fyrir þýska landmælingamenn í GPS mælingum sumrin 1993 og 1995. Það var æðislegt fyrir tæplega 20 ára gamall gutta að fá að keyra stóran jeppa yfir Sprengisandi og Kjöl og að fá þessað auki borgað fyrir það. Ekki skemmdi heldur að maður fékk að spreyta sig á þýskunni á meðan, hehe.
2. Smiðjan hjá Ístak. Vann við það í eitt sumar að setja upp vélbúnað í skólphreinsistöðinni niðri á Granda áður en hún var tekin í notkun sem betur fer. Vann með ítölskum kana, Alesandro eða Sandro að nafni, og við vorum lægst settir af öllum og vorum settir í að mála drullupumpurnar á botninum í skítakarinu, skríða í ræsunum og hreinsa suður o.s.frv. Algert skítadjobb en kaninn var skemmtilegur.
3. Trillukarl hjá Vöruflutningamiðstöðinni í 2 sumur. Mitt hlutverk var að taka á móti vörum og setja á “trilluna” mína og skutla því í básinn hjá Gvendi á Hólmavík og fleiri góðum. Þarna voru litríkir karakterar, sérstaklega hann Snorri sem átti það til að garga á viðskiptavinina til að stuða þá og Steini gamli sem að lyktaði svo hrikalega illa að forstjórinn sendi hann heim í bað alla vega á 2 vikna fresti.
4. Verkfræðingur hjá OZ í Stokkhólmi. Þegar við Íris fluttum út til Stokkhólms fékk ég vinnu hjá OZ sem hafði nýopnað skrifstofu á Drottninggatan. Skrifstofurnar voru á fáranlega góðum stað við aðalgötuna í Sth., innréttingarnar voru italian design (við sátum með skjáina í fanginu þar sem borðin voru svo grunn en þau voru flott) og það var partí 4. hvern föstudag þar sem við fórum út í Systembolaget með kerru og fylltum af bjór og kláruðum svo. Þetta var æðislegur tími en við seldum að sjálfsögðu ekki neitt.

Fjórar kvikmyndir sem ég get horft á aftur og aftur.
1. Terminator. Orginallinn er alveg frábær og Arnold er flottur... I’ll be back
2. Back to the Future trilógían. Það er eitthvað við þessa seríu sem að heillar.
3. Með allt á hreinu. Maður er alltaf að fatta einhverja nýja brandara í þessari snilldarmynd
4. Liverpool, the road to glory 2005. Já, það er endalaust hægt að horfa á Liverpool verða Evrópumeistara

Fjórir staðir sem ég hef búið á.
1. Dragavegur 4. Man ekkert eftir að hafa búið hérna en það var líklega fjör. Ég var bara 2 ½ þegar ég flutti héðan. Keyri þó stundum framhjá og þykist muna eitthvað. Ég held þó að þetta sé þykjustu minningar, þvingaðar fram af ljósmyndum af mér í brúnum og gulum fötum.
2. Álfheimar 22. Frá 1977 til 1999 bjó ég í Álfheimum 22 og svo aftur núna frá 2006 og líklega fram á haustið 2007. Þetta var stórt heimili, við systkinin með mömmu og pabba og svo Villi fósturbróður mínum á efri hæðunum tveimur og svo amma og ömmusystir í kjallaranum. Ég var yngstur, fæddur 1975 en Ella ömmusystir var elst, fædd 1895. Það var gott veganesti að alast upp í þessu litla samfélagi. Svo bjó auðvitað Maggi stórvinur á númer 18.
3. Erik Sandbergsgatan, Solna. Fyrsta heimili okkar Írisar. Við máluðum í hræðilegum litum og vorum mest megnis með lánuð húsgögn en við höfðum það mjög gott þarna.
4. Råstensgatan 13, Sundbyberg. Æðislega íbúðin okkar í Svíþjóð. Hvað er notalegra en að sitja við arininn á köldum vetrardegi með glögg og lussebullar.

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum.
1. Portúgal. Brúðkaupsferðin með Írisi árið 2001. Allt var planerað fyrirfram af ferðskrifstofunni, við fengum meira að segja kort af Portúgal þar sem búið var að tússa inn aksturleið með öllum gististöðunum. Við keyrðum frá norðri til suðurs og gistum á víngörðum. Maturinn var æðislegur, Calamaries í hvert mál fyrir mig.
2. Benidorm. Þriggja vikna djammferð með vinunum. Þessa ferð hefði mátt stytta um svona 2 vikur, Benidorm er mesta skítapleis sem ég hef komið á ævinni. Það var ógeðslega heitt, það fengu allir í magann og Maggi stórvinur endaði inni á spítala með næringu í æð og kom heim næpuhvítur og 10 kg léttari og var ekki samur fyrr en mörgum mánuðum síðar.
3. Helsinki. Ég hef farið ótal sinnum til Helsinki og alltaf með Silja Line. Ferðafélagarnir hafa verið mismunandi en ég held að Reynir hafi oftast verið með. Það er eiginlega alltaf miklu skemmtilegra á leiðnni þaðan og þangað heldur en í sjálfri borginni.
4. Val d’Isere. 1 viku skíðaferð með æskuvinunum ásamt konunum okkar til Val d’Isere árið sem við urðum þrítugir. Við leigum okkur æðislegan skála og fengum fullkomið veður allan tímann. Stjáni stal showinu sem “Axel í gær” og með Rammstein atriðinu.

Fjórar síður sem ég skoða daglega.
1. www.mbl.is
2. http://www.liverpool.is/
3. http://www.soccernet.com/
4. http://www.google.is/

Fjórar bækur sem ég les oft.
Ég get ekki sagt að ég lesi bækur oft. Það er nú bara þannig að ég les þær einu sinni og síðan tekur næsta við

Fjórir staðir sem ég vildi vera á núna.
1. Á heitum og sólríkum stað með stelpunum mínum
2. Í Svíþjóð í húsinu sem að við næstum því keyptum í Kallhäll
3. Á Anfield í Liverpool með Magga
4. Á toppnum

Fjórir sem ég skora á að gera þetta.
1. Íris
2. Guðrún
3. Maggi og/eða Drífa
4. Tobbalingurinn minn

Óli