Emilía Þórný og Anna Soffía

sunnudagur, júní 26, 2005

Amma og afi í heimsókn



Amma Soffía og afi Baldur eru núna í heimsókn og Emilía Þórný nýtur þess (og foreldrarnir ekki síður, lúxus að fá hjálp við bleyjuskipti, uppvask og bara að komast í sturtu án þess að hafa áhyggjur af því að Emilía sé vöknuð eða ein að gráta). Óli fór í vinnuna sama dag og þau komu þannig að ég hef haft frábæran félagsskap heima og fengið smá reynslu í að fara með hana út. Emilía hefur farið niður í bæ, setið á kaffihúsi, farið í heilsdagsveislu á Midsommar og skroppið í dagsferð til Västerås og allt saman hefur gengið mjög vel. Það er helst ég sem er stressuð stundum en litla bara sefur á sínu græna í vagninum og lætur fátt trufla sig.
/Iris

Midsommar stelpa

Emilía Þórný fór á midsommarskemmtun á föstudaginn og skemmti sér vel. Hún gat nú ekki dansað í kringum midsommarstöngina í þetta sinn, en Baldur afi týndi blóm og amma Soffía hnýtti lítinn blómakrans handa henni í tilefni dagsins.

laugardagur, júní 18, 2005

Hæ, hó jippí jej og jippíi jej!

Emilía fór í fyrsta partýið sitt í gærkvöldi, 17. júní grill hjá Beggu og Ingó. Hún kunni bara vel við sig og fékk góðar móttökur. Á myndinni eru þær Begga og Ragga að dást að henni.



Hér er búinn að vera sumarhiti og Emilía virðist ekki þola hann vel, hlakkar til að koma til Íslands í svalann sumarblæinn. Sem betur fer var aðeins svalara í dag og við ákváðum að eyða deginum í pick-nick í svölum skugganum við tjarnirnar hérna rétt hjá, það féll í kramið hjá dúllunni og hún hefur sofið sem aldrei fyrr, tók þrjá tveggja tíma lúra í röð, stelpan kann greinilega vel við sig utandyra.

Nú eru líka komnar nýjar myndir af Emilíu Þórnýju

fimmtudagur, júní 16, 2005

Heitt í dag, rigning á morgun?

Í dag var 25 stiga hiti og sól og við vorum því bara innan dyra í dag. Samt var Emilía ansi pirruð á hitanum og svaf lítið í dag. Hún er eins og hann pabbi hennar og líður best í íslenska loftslaginu þar sem hitinn er milli 0 og 10 gráða. Við fórum því bara í kvöldgöngu þegar hitinn var kominn niður fyrir 20 gráður og stoppuðum í 7-11 og fengum okkur ís, þ.e.a.s við Íris. Emilía mun fá þennan ís einhvern tímann á morgun eftir smá vinnslu hjá Írisi :) Á morgun á ekki að vera jafn heitt og í dag og vonumst við eftir "þjóðhátíðarveðri" og aðeins betri líðan hjá dömunni.
Begga og Ingó verða með 17. júní grill heima hjá sér á morgun og ætlum við að mæta þangað öll og verður það því fyrsta útstáelsið hjá Emilíu Þórnýju. Það verður gaman að komast aðeins út og sjá aðeins meira af heiminum.
Um helgina verður síðan myndasíðan uppfærð með nýjum, ferskum myndum.

miðvikudagur, júní 15, 2005

Drekkur, drekkur....

Hún Emilía Þórný fór í skoðun á BVC (Barnavårds Centralen) á mánudaginn 13/6 og reyndist þá vera búin að bæta á sig 1/2 kg á einni viku. Hún er því komin yfir fæðingarþyngdina og orðin 3.8 kg stúlkan. Við erum reyndar ekkert hissa á þessari þyngdaraukningu þar sem að hún er ansi iðin við að næra sig. Það er þó ekki mikið m.v. frænda hennar, son Rakelar og Jóa, sem að fæddist í morgun 15/6 í Kaupmannahöfn en hann var 5 kg og 57 cm við fæðingu.
Við höfum einnig verið að rýna í háralitinn hjá henni og erum orðin nokkuð sannfærð um að hún sé rauðhærð eftir að hafa í fyrstu haldið að hún væri ljóshærð. Ætli það sé ekki einhversstaðar mitt á milli, nokkurs konar "Strawberry Blonde"? Hvað finnst ykkur annars?

sunnudagur, júní 12, 2005

1 viku afmæli


Í gær var Emilía 1 viku gömul og Begga og Ingó voru svo sniðug að koma með ekta sænska "prinsesstårta" handa prinsessunni í tilefni dagsins.
Hún var annars svo upprifin yfir heimsókninni að hún sofnaði ekki fyrr en klukkan hálf átta um kvöldið og hafði þá verið vakandi frá því um eittleitið fyrir utan einhverja beuty-blunda í fanginu á mér og Óla yfir daginn. Henni var líka greinilega ægilega illt í maganum um kvöldið og mikið er það sárt að sjá hana þjást. Hélt svo fyrir okkur vöku í nótt. Könnumst ekki alveg við það að nýburar sofi svo mikið... hún er voðalega hrifin af því að vera vakandi og sérstaklega fyrripart nætur, svo er hún frekar róleg fram til hádegis. Sem sagt nátthrafn.

miðvikudagur, júní 08, 2005

Kveðja frá nýbakaðri mömmu



Þá erum við þrjú komin heim í hreiðrið okkar. Fórum heim í fyrradag og hún svaf vært í bílnum á leiðinni þrátt fyrir taugastyrka foreldra sem keyrðu á 30 heim frá spítalanum og hefðu helst viljað fá lögreglufylgd heim til að koma í veg fyrir möguleg slys.

Það var sannarlega gaman að koma heim og lesa allar hlýju kveðjurnar á blogginu okkar, þökkum hjartanlega fyrir falleg orð og hugsanir!

Það er allt á hvolfi hér og greinilegt að Emilía ræður ferðinni, við vitum varla hvort það sé dagur eða nótt en vonum að hún verði aðeins reglulegri eftir nokkra daga í viðbót. Okkur finnst hún náttúrulega vera fallegasta barn í heimi og dáumst að henni og svipbrigðum og geiflum hverja mínútu. Hún er lítil og róleg stelpa sem finnst best að fá að drekka eða kúra í faðminum hjá mömmu eða pabba. Er lítið hrifin af því að sofa ein en við reynum samt að leggja hana í vögguna sína þegar hún sefur svo hún venjist því líka.

sunnudagur, júní 05, 2005

Emilía Þórný Ólafsdóttir

Hæ hæ

Emilía Þórný kom í heiminn laugardaginn 4. júní 2005 klukkan 20:27 að sænskum tíma.

Öllum heilsast vel og við erum í sjöunda himni
Kveðja
Íris, Óli og Emilía

föstudagur, júní 03, 2005

Laugardagur til lukku !

Vorum á Karolínska í skoðun og allt leit vel út. "da baby" var í fullu fjöri og virðist bara líða vel, en við ákváðum að taka örlögin í okkar hendur og fengum það í gegn að vera sett af stað á morgun, laugardaginn 4. júní. Þetta getur nú tekið dálítinn tíma þannig að öllum líkindum verður krílið komið í heiminn á sunnudag. Í dag og í kvöld höfum við því tíma til þess að slaka á (alla vega Íris), skipuleggja hvað við tökum með okkur á fæðingardeildina, hlaða batterí fyrir myndavélar, gemsa og videó og undirbúa okkur andlega (ef það er hægt).
Meiri fréttir koma síðar
Over and out

fimmtudagur, júní 02, 2005

41 vika og 6 dagar...

Barnið virðist ekkert á því að koma í heiminn. Skiljum ekki í því að það nenni að klessast þarna í maganum, því það er ekki eins og plássið sé að aukast. Mér fannst krílið vera eitthvað rólegt á þriðjudaginn og fékk því að koma upp á Karolínska í smá tjekk. Þar var ég sett í hjartarita í 50min og fylgst með samdráttum. Það sást þá að ég var með reglulega samdrætti, en þeir eru nú ekki sterkir. Barnið var í fullu fjöri á meðan að á þessu stóð, hef ekki séð það hreyfa sig svona mikið í lengri tíma, er það ekki týpískt! Læknirinn sagði að ég væri komin með 2cm í útvíkkun þannig að eitthvað er nú líkaminn að undirbúa sig og svo var hreyft við belgnum í von um að eitthvað færi af stað. Var svo andvaka alla nóttina úr því að ég var svo spennt að bíða eftir að verkirnir myndi aukast... en þeir duttu niður um morguninn eins og alla aðra morgna... og Óli fór í vinnuna, enn einn daginn, eftir að hafa spurt hvort ég héldi að það væri eitthvað að gerast.
Á morgun kl. 8:00 (hef ekki vaknað svo snemma í 3 vikur) eigum við svo tíma í "överburenhetskontroll" á Karolínska. Þá verður aftur fylgst með hjartslætti, samdráttum, farið í sónar, athugað hvort blóðflæði í naflastrengnum sé nógu gott, tjekkað á útvíkkun og hreyft við belgnum... væri ekki bara minna mál að setja mig af stað?? Við óþolinmóðu foreldrarnir erum farin að hlakka ægilega til þess að hitta þennan þolinmóða einstakling!
"Moster" og bráðum Dr. Sonja bað um bumbumyndir, hér eru þær:



41 vika og 5 dagar. Komin með fína "hyllu".