Emilía Þórný og Anna Soffía

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Komin í sumarfrí til Íslands

Þá erum við mæðgur komnar til Íslands í frí. Flugferðin gekk eins og í sögu! Emilía var algjör engill, svaf og var bara að skoða sig um öllum til mikillar ánægju. Ég gat borðað matinn, lesið uppáhalds tímaritið mitt um þessar mundir; "Mama" og slappað af. Leið eins og hinni "fullkomnu móður", en ég held frekar að Emilía hafi verið fullkomin þessar klukkustundir (eins og auðvitað alltaf). Emilía hefur núna fengið að hitta bæði ömmur og afa og langömmur og er alsæl, saknar samt pabba síns en hann kemur á laugardag! Meiri fréttir frá klakanum (sem er reyndar alveg að bráðna í sólskininu) koma síðar.

föstudagur, júlí 22, 2005

Spennandi önd og annað dót


Emilía fór í byrjun síðustu viku (þá orðin rétt rúmlega 5 vikna) skyndilega að taka eftir litlu öndinni sem hangir í vagninum hennar og núna getur hún horft á hana dinglast og danglast fram og tilbaka endalaust ef vel liggur á henni. Kemur sér vel í göngutúrum þegar hún vaknar (arrg, á náttúrulega helst að sofa). Þá er hún yfirleitt sátt við að liggja áfram í vagninum og fylgjast með öndinni sinni. Ingibjörg og Örvar komu svo með fína og litríka tréfíguru með bjöllum á sem hún fær líka að horfa á og hefur gaman af.

sunnudagur, júlí 17, 2005

Magnús frændi í heimsókn


Þau Ingibjörg, Örvar og Magnús frændi eru í helgarheimsókn núna og fá allir að prófa að halda á Emilíu og gjarnan að skipta á henni líka :=). Magnús hefur verið agalega góður við litlu frænku sína og klappar henni varlega og segir "aaaahh". Hann á dálítið erfitt með að segja Emilía og kallar hana þess vegna "beibíí", enda er það náttúrulega vel við hæfi. Við fórum í picknick á ströndinni í dag og Magnús óð galvaskur út í svalt vattnið og synti og buslaði á fullu. Ætli Emilía baði nokkuð þar til næsta sumar og þá kanski hún verði jafnhrifin og Magnús.

föstudagur, júlí 15, 2005

Frænkur í heimsókn



Frænkur mínar Ingrid og Anna komu að heimsækja Emilíu Þórnýju í dag og hún hafði það gott í fanginu hjá þeim. Svaf heillengi hjá Ingridi og kúrði hjá Önnu. Það er svo gott að fá að sofa í fanginu hjá einhverjum og kúra. Sú stutta er mikið fyrir "power naps" upp á 10-20 min. og vaknar svo um leið og hún er lögð í vagninn eða vögguna.

mánudagur, júlí 11, 2005

Fín í sumarkjól


Við klæddum Emilíu Þórnýju í sparikjól sl. föstudag þegar við fórum út að borða á Lidingö Värdshus. Mér leið eins og í dúkkuleik, enda er þetta algjör dúkkukjóll sem hún fékk frá ömmu og afa. Þess má geta að hann er keyptur í Zöru þar sem stærðirnar miðast við lítil og mjó spænsk ungabörn, þessi kjóll er í stærð 66-74 og á að passa á 6-9 mánaða gömul börn...

Í 5 vikna skoðun á BVC


Ég fór með Emilíu Þórnýju í 5 vikna skoðun til Karin á BVC (Barnavardscentralen) á fimmtudaginn og þá mældist skvísan 5.1kg og 60cm. Þó svo að ég sé með henni alla daga þá sé ég að hún vex, svona hratt stækkar hún! Hér er mynd af henni á skiptiborðinu þar sem Karin er að athuga hvort hún fylgi með augunum, og auðvitað gerði hún það, enda vill hún alltaf vera að fylgjast með og helst ekki loka augunum til að sofa.

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Sætasta brosið


Loksins náðist almennileg mynd af Emilíu Þórnýju brosandi. Fyrsta skiptið sem hún brosti var á fjórða degi þegar hún var að drekka og það kom mjólk. Þá færðust munnvikin uppávið og við bráðnuðum náttúrulega. Núna varir brosið aðeins lengur og nær til augnanna. Henni finnst skemmtilegast þegar einhver er að tala við hana og þá brosir hún gjarnan og hjalar tilbaka.

þriðjudagur, júlí 05, 2005

Mánaðargömul pabbastelpa


Emilía Þórný varð mánaðargömul í gær, ótrúlega líður tíminn hratt! Hún hefur verið dálítið óróleg í maganum og sefur stundum voðalega lítið, því hún finnur ekki ró, eða vaknar eftir 10 mín með gráti. Og svo á endanum er hún orðin svo þreytt að hún grætur af þreytu, greyið litla, við finnum ægilega til með henni. Það er líka frekar heitt hérna og mikil sól og það gerir hana kanski óværari líka. Við mæðgur ætlum því að halda okkur innandyra heitasta tíma dagsins í dag og fara bara í kvöldgöngu í kvöld.
Hún er líka orðin mikil pabbastelpa og sofnar helst í fanginu hjá honum, held að hún finni bara mjólkurlykt af mér og vill þá stöðugt drekka, þótt hún sé ekkert svöng.