Emilía Þórný og Anna Soffía

mánudagur, maí 30, 2005

Pabbinn heilsar

Halló halló gott fólk !!!

Nú er ekkert að gerast hjá okkur og því sannarlega tilefni til að blogga aðeins og flytja smá "ekki-fréttir". Ég var mikið búinn að pæla í þeirri kennitölu sem að barnið myndi fá því að maí mánuður 2005 er svo sannarlega gósenmánuður fyrir svona tölunörda eins og mig.
050505, bæði á Íslandi og í Svíþjóð
050515 eða 150505
050520 eða 200505
050525 eða 250505
050530 eða 300505
Það er ótrúlegt að barnið skuli ekki hafa hitt á eitthvað af þessum tölum :-) Ég er núna að biðja Írisi um að stefna frekar á 7. júní fyrir 050607 (070605) en undirtektir eru eitthvað dræmar.
Annars höfum við nú verið að spá í meðgöngulengd í ættunum okkar og það virðist ekkert vera óalgengt að börn gangi yfir tímann, alla vega Írisar megin. Þetta er því ekkert óeðlilegt ef tekið er tillit til þessa. Þetta er nú ekki alslæmt því að börn sem ganga yfir tímann eru einstaklega gáfuð börn, alla vega samkvæmt konunni sem vinnur í miðasölunni á lestarstöðinni hérna niðrí Centrum. Einnig fæddist víst stórleikarinn Jackie Chan eftir 10 mánuði meðgöngu þ.a. þetta verður greinlega ofurgáfuð kvikmyndstjarna.
Það var ekki meira í ekki-fréttum að þessu sinni.
Bæjó frá Sundbyberg
Óli

föstudagur, maí 27, 2005

Góðir hlutir gerast hægt...

... sagði einhver, eða var það ekki þannig? Það er alla vega á hreinu að krílið er ekkert að flýta sér í heiminn, verður orðið að rúsínu þegar það loksins kemur út eftir 42, 43(?) vikna sund í maganum.
Í dag er meðgangan orðin 41 vika og ég fór í tilefni dagsins til Gunillu ljósmóður til að tjekka á kúlunni. Blóðþrýstingurinn náði núna sögulegu lágmarki (105/50) og allt bara í stakasta lagi. Barnið er núna skorðað (one small step...), alltaf eitthvað til að gleðjast yfir:=)
Fór að spyrjast fyrir um hvert framhaldið yrði ef barnið lætur bíða enn lengur eftir sér og það er greinilegt að Svíar eru fyrir náttúrulega fæðingu og ekki gangsettningu. Þegar ég verð komin 2 vikur framyfir fer ég í skoðun á Karolinska þar sem fósturstærð og legvatn o.fl. verður metið og mælt. Ef allt er í lagi verður ekkert gert heldur þessi skoðun endurtekin á 2ja daga fresti þar til ég er gengin 3 vikur (!!) framyfir og þá er fæðingin loksins sett af stað, þ.e. ef þetta kemur ekki af sjálfu sér. Sem sagt er síðasti sjens á að barnið fæðist u.þ.b. 11. júní, spurning hvort maður biðji ekki bara um viku í viðbót og panti svo keisara 17. júní, til að gera þetta nú með stæl úr því að það er verið að bíða svona lengi á annað borð.

miðvikudagur, maí 25, 2005

+ 5 dagar og ekkert að gerast...

"Komdu út", biðjum við Óli, en krílið virðist ekkert vera á þeim buxunum, þótt það sé orðið heldur þröngt í maganum. Mér finnst barnið hafa tekið einhvern vaxtakipp síðustu daga og það er greinilegt að barn af þessari stærð hefur ekkert að gera í maganum degi lengur. Það er orðið ótrúlega sterkt og spyrnir sér með fótunum og þrýstir upp bossanum, boxar með höndunum og teygir sig (og mig!) í allar áttir.
Fer í langa göngutúra og geng í tröppum til að koma þessu af stað en allt kemur fyrir ekki. Var á röltinu í 5 klst í bænum í dag og gerði allt sem maður óskar sér að maður gæti gert þegar maður er fastur í vinnunni á fínum sumardegi: fékk mér hádegismat með Beggu, settist niður á kaffihús og drakk kaffi latte og las bók, verslaði smá og skoðaði í búðarglugga. Er búin að pakka niður dótinu sem við tökum með okkur á fæðingardeildina þannig að við erum tilbúin að rjúka út um leið og fæðingin (sem á náttúrulega eftir að vera hröð og taka fljótt af) fer af stað. Hef aldrei hlakkað til þess að fá verki, en núna magnast eftirvæntingin með hverjum deginum sem líður...

sunnudagur, maí 22, 2005

Hvenær kemur krílið og hvað er það stórt?

Erum farin að spyrja okkur þessara spurninga ansi oft núna. Þið megið gjarnan koma með ágiskun á fæðingardag, þyngd og lengd. Það er allt með kyrrum kjörum hér en ég giska á að það komi 26. maí og verði þá 3700gr og 54cm. Óli hélt 22. maí en það er orðið mjög ólíklegt...

fimmtudagur, maí 19, 2005

19. maj = 40 vikur komnar ...

Þá kom að því að það stæði 19. maj í dagatalinu, og eins og mig grunaði þá er hann ekkert ólíkur öllum hinum dögunum. Klukkan að verða þrjú og ekkert bólar á baby-inu og engir verkir að láta á sér kræla heldur. Það er greinilegt að ég fæ að horfa á undankeppni Eurovision ótrufluð og kanski líka aðalkeppnina á laugardag, yes! Óla hefur dreymt að krílið komi 22. maj og mér líst bara vel á þá dagsetningu.

Fór til Gunillu ljósmóður á þriðjudag og samkvæmt henni sneri höfuðið niður í grindina en var ekki alveg skorðað heldur pínu "rukkbart" eða hreyfanlegt eins og það heitir á íslensku. Þetta þýðir sem sagt að það á eftir að síga aðeins meira, til að teljast full skorðað. Annars var allt með felldu, blóðsykur og blóðþrýstingur lágur og maginn akkúrat á meðalkúrvunni.

Á mynd: 39 vikur 3 dagar, tikkandi sprengja...


fimmtudagur, maí 05, 2005

38 vikur og stóri dagurinn nálgast



Nú er foreldrafræðslunni lokið á MVC (Mödravårds Centralen) og við erum orðnir útlærðir foreldrar. Á MVC fengum við að sjá heimildamyndir um fæðingar og brjóstagjafir (the epic movie "Bröst är bäst") sem og allar hugsanlegar verkjastillandi aðferðir s.s. nálastungur voru kynntar og ræddar. Við erum einnig búin að versla fyrir hálf fjárlög íslenska ríkisins í Babyland (http://www.babyland.se/) og eigum allar græjur sem svona kríli þurfa nauðsynlega að fá. Hverjum hefði dottið í hug að það væri til svona mikið af barnagræjum? Það eru greinilega snillingar að verki sem að finna upp á öllu þessu dóti sem að maður getur hreinlega ekki verið án. Það er ómögulegt að ímynda sér hvernig foreldrar okkar fóru að þegar ekki voru til rafmagns brjóstapumpur og þvottabalar með hitamælum og sæti. Við erum annars á leiðinni út úr bænum í rómantíska herragarðsheimsókn á morgun þar sem ætlunin er að njóta síðustu daganna áður en krílið lætur sjá sig. Það verður víst ekki mikið um svoleiðis ferðir á næstunni og því um að gera að nota tækifærið :-)