Emilía Þórný og Anna Soffía

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Tveimur staðalfrávikum frá meðalkúrvu

Við fórum með Emilíu til Karin á BVC í gær í skoðun (11 vikna og 3 daga). Hún mældist þá 6.5kg og 64cm og fylgir hæstu kúrvu vel í þyngd, lengd og höfuðummáli. Það er því ekki skrítið að fólki finnist stelpan okkar stór eftir aldri, það er hér með staðfest.

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Hilmir Viktor Stangeland



Begga og Ingó eignuðust son á laugardaginn, 20. ágúst, og við fórum að heimsækja þau í "hreiðurhótelið" á Danderyd í dag. Litli strákurinn er alveg bráðmyndarlegur. Við óskum þeim hjartanlega til hamingju með soninn sem hefur fengið nafnið Hilmir Viktor. Hann var nánast nákvæmlega jafnstór og Emilía Þórný þegar hún fæddist og í dag var það því mjög sláandi hvað hún hefur vaxið mikið á bara 12 vikum.

Komin heim í heiðardalinn

Emilía Þórný og Katrín Hekla

Það fyrsta sem kom upp í hugann þegar við mættum upp í Leifsstöð klukkan 06:10 í gærmorgun var að þetta væri eins og að vera í einhverri afdala flugstöð í þriðja heims ríki. Raðir út fyrir dyr, engir vagnar til undir ferðatöskurnar né barnavagninn og svo starfsfólk sem varla vissi hvað það hét..hvað þá gefið upplýsingar um hvernig við ættum að koma barnabílstól, barnavagni, tveimur blýþungum ferðatöskum, handfarangri og einu litlu barni frá bílnum og gegnum öll ósköpin. Við komumst þó yfir forláta innkaupakerru frá Fríhöfninni (guð blessi ykkur elskurnar mínar) sem vagninum var hrúgað í innpökkuðum og svo gátum við burðast með rest upp að dyrum. Við neyddumst til að skilja Emilíu eftir í bílnum í 2 mínútur á meðan við hlupum með þetta allt saman og það var ekki góð tilfinning. Þegar við komumst inn fyrir dyrnar úr rokrassinum var sem betur fer fluginu seinkað um hálftíma og hugsuðum við okkur gott til glóðarinnar með að ná smá fríhafnarstússi og að fæða ungfrúna fyrir brottför. Flugleiðir gerðu gott betur og léttu undir með okkur og frestuðu brottför í 3 tíma til viðbótar þegar 10 mínútur voru í ætlaðan brottfarartíma. Það varð síðan smá seinkun til viðbótar svo að flugvélin lagði af stað tæpum 4 tímum eftir upphaflegan brottfarartíma. Emilía tók þessu öllu mjög vel, fékk sér vænan lúr í flugstöðinni og vaknaði temmilega klukkutíma fyrir brottför og fékk sér þá sopa. Hún kunni svo afskaplega vel við sig í flugvélinni og sofnaði í flugtaki og vaknaði u.þ.b. yfir Västerås þegar 15 mín voru til lendingar.
Við komum svo loks heim í hús 12 tímum eftir að við vöknuðum á Íslandi klukkan 04:45 að morgni. Það var gott að koma heim en hálf tómlegt þó eftir að hafa verið umkringd okkar nánustu síðustu vikurnar í frábæru fríi á Íslandi.

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Emilía Þórný skírð


Litla dúllan okkar var skírð af séra Ólafi Jóhannessyni í Grensáskirkju í gær, skírnarvottar voru systur okkar, Sonja og Ingibjörg. Emilía stóð sig með prýði, enda búin að sofa, drekka og ropa rétt fyrir athöfnina. Hún var voðalega róleg og fylgdist vel með öllu saman okkur til mikillar gleði. Síðan var haldið upp á daginn með kaffi hjá ömmu og afa í Hvassó. Þar var fjölmenni og Emilía virtist kunna vel við sig, enda í góðum selskap! Þetta var yndislegur dagur og eftirminnilegur!