Emilía Þórný og Anna Soffía

fimmtudagur, júní 29, 2006

Burri, burri burr


Emilía Þórný er orðin ansi mikil bílamanneskja og segir burr, burr þegar hún sér bíla eða er að leika sér að þeim. Henni finnst mjög gaman að leika sér að brunabílnum sem að amma og afi gáfu henni og sést hér á myndinni. Hérna er hún að "kenna" Birnu vinkonu hvernig á að stjórna þessu tryllitæki. Skemmtilegast fannst henni þó þegar Birna sat á bílnum og hún ýtti og burraði.

Á mánudaginn er svo stefnan tekin á Svíþjóð í viku frí. Það verður æðislegt að koma "heim". Í framhaldi af því förum við Emilía áfram til Danmerkur til Ingibjargar og fjölskyldu og verðum þar í tæpa viku. Það verður gaman að þau Magnús fái að leika sér saman sem og fyrir okkur systikinin að hittast. Það verða nú einhverjar blogfærslur settar inn á ferðalaginu ef að tíminn leyfir :-)

//Óli

miðvikudagur, júní 21, 2006

Hæ, hó, jibbíjei...

Hæ, hó, jibbíjei og jibbíjei, það er kominn 17. júní. Myndin er tekin á Arnarhóli á 17. júní í kalsaveðri og rigningarúða, týpísku þjóðhátíðarveðri. Með okkur á myndinni eru vinir okkar Maggi, Drífa og dætur þeirra Rósa sem er 2 ára (að verða 3) og svo Birna sem verður eins árs á sunnudaginn. Emilíu fannst mjög gaman í bænum, nóg að fólki að skoða og spjalla við. Hápunktur stuðsins var þó helíum blaðran með fiskamyndinni sem hún fékk og var bundin við vagninn hennar. Það var ekki lítið fjör þegar hún hristi og faðmaði gripinn.
Emilía Þórný er annars komin með áttundu tönnina og eru þær nú orðnar jafnmargar í efri og neðri góm. Hún er farin að segja "kiþa" þegar hún sér kisu eða mynd af ketti, reyndar kallaði hún líka svona lítinn dverghund "kiþa" sem hún sá um daginn. Hún talar mikið sína eigin mállýsku (Emillísku) og er oft mikið niðri fyrir þegar hún vill koma sínum skoðunum á framfæri.

þriðjudagur, júní 13, 2006

Nýjar myndir og tíðindaleysi

Síðustu vikuna hefur rignt og rignt og svo rignt aðeins meira. Við Emilía höfum lítið getað verið á ferðinni þess vegna og erum maður nú orðinn ansi langeygur eftir sumrinu. Þetta getur verið ansi pirrandi fyrir þessa litlu félagsveru sem kann best við sig innan um fullt af fólki og á nýjum stöðum. Svo er bara sagt við mann, "það er ekkert til vont veður, það er bara að klæða sig betur". Það er ekki alveg að ganga upp þegar slagveðrið stendur inn í kerruna. Spáin fyrir vikuna er áframhaldandi rigning. Húrra :-) Við sjáum sumarfríið í Svíþjóð og Danmörku í hillingum enda eru 25+ gráður þar núna og sól. Vonandi að það haldist bara.
Emilía hefur nú lítið bætt við orðaforðann undanfarið enda er "hæ" nær því það eina sem hún segir. Hún er þó að reyna að herma meira eftir orðum hjá okkur en áður en þau hafa ekki náð að festa sig í sessi eins og hæið.
Svo eru komnar nýjar myndir frá eins árs afmælinu hennar

mánudagur, júní 05, 2006

...og svo textinn með myndinni úr afmælinu

Emilía Þórný á 1 árs afmæli ídag! Það var auðvitað haldin afmælisveisla í tilefni dagsins og var mikið líf og fjör í henni enda góður hópur af krökkum mættur á svæðið. Þegar ljóst var að allir kæmust aldrei fyrir í íbúðinni okkar var ákveðið að halda partýið uppi hjá Dísu ömmu. Mætt voru m.a. Rósa, Birna,Baldvin, Natalía, Kaja, Elín Rós, Gyða og Sigurður ásamt foreldrum þeirra, öðrum ættingjum og ömmum, afa og langömmu.Emilíu fannst svo gaman í afmælinu að hún vissi varla í hvorn fótinn hún ætti að stíga. Það sást til hennar á ganginum uppi þegar hún var að skríða á milli herbergja en snéri strax við til að missa ekki af fjörinu í hinu herberginu.Boðið var upp á íslenskar hnallþórur ásamt oblígatorísktri súkkulaðiköku skreytta smarties og einu kerti sem Emilía gerði tilrauntil að blása á, en mamma varð að koma til hjálpar. Hún fékk ekkert að gæða sér á neinum kökum enda svo spennt að húnmátti ekki einu sinni vera að því að borða kvöldmatinn.Afmælisgjafirnar voru margar og flottar og fékk hún fullt af fínu, nýju dóti, m.a. æðislegan síma á hjólum sem spilar ogrosalega flottan, rauðan brunabíl sem hún getur gengið með eða ýtt sér áfram á. Hún neitaði að skilja við brunabílinn þannig að viðurðum á endanum að fela hann þegar komið var að því að hátta og bursta tennur fyrir svefninn. Svo fékk hún líka mikið af fallegum fötum og æðisgengna, bleika, púmaskó frá Magnúsi frænda í Danmörku.Á myndinni sést hún á brunabílnum að hringja og segja "hæ, hæ!" í símann, en þannig vildi hún helst vera! Það er erfitt að trúa því að það sé ekki nema ár síðan litla "debban" okkar kom í heiminn, hún er orðin svo mikil manneskja sem spásserar um með vagninn sinn og segir "hæ!" hátt og snjallt, verður reið þegar hún fær ekki sínu framgengt, buslar í baðinu og tínir upp í sig cheerios og býður okkur líka.
Afmæliskveðjur frá afmælisprinsessu og foreldrum hennar!

Hún á afmæli í dag!