Emilía Þórný og Anna Soffía

miðvikudagur, mars 12, 2008

Heima




Þá er "litla systa" komin heim síðan á laugardag og hún hefur sýnt sama lundarfarið áfram eins og frá fæðingu en hún lætur fátt trufla svefn- og drykkjartíma, en af þeim tveimur er svefninn með vinninginn enn sem komið er. Það er því ekki óvanalegt að gestir fái ekki að sjá stúlkuna með opin augun því hún sefur sig einfaldlega í gegnum heilu heimsóknirnar þótt verið sé að halda á henni og færa á milli vöggu og skiptiborðs. Látum því fljóta með eina mynd af henni vakandi að virða fyrir sér kusu, en hún er greinilega athygliverð, enda með spena ;=)
Emilía stóra systir er ofsalega stolt af þeirri litlu og alveg sérlega góð við hana, vill auðvitað aðstoða við hin ýmsu verk og segir "allt í lagi litla systir" þegar hún grætur. Hún er einna helst spæld með að ég (Íris) geti ekki borið hana eins og venjulega en það kemur allt saman síðar. Á myndinni hér fyrir ofan er hún að sýna vinkonum sínum og nágrönnum, Rósu og Birnu, nýja fjölskyldumeðliminn en þær gáfu sér góðan tíma til að virða hana fyrir sér, sérstaklega Rósa sem var ofsalega áhugasöm um þetta litla kríli enda elst í hópnum.

föstudagur, mars 07, 2008

Systrasvipur

Spurning hvort það sé systrasvipur hér á ferð? Hér er mynd af Emilíu Þórnýju þegar hún var 1 dags gömul

fimmtudagur, mars 06, 2008

Litla systir komin í heiminn




Í dag klukkan 12:41 kom "litla systir" í heiminn, 3420 grömm og 50 cm. Hér eru nokkrar myndir af stúlkunni og aðstandendum.

þriðjudagur, mars 04, 2008

Þorláksmessu stemmning



Þessi mynd var tekin í gærkvöldi af þeim mæðgum, Írisi og "litlu systur". Sú stutta er reyndar eitthvað að fela sig á myndinni eins og glöggir lesendur taka eftir. Á morgun er svo komið að því og áætlað að krílið komi í heiminn um eða upp úr hádegi. Hér er hálfgerð Þorláksmessu stemmning þar sem mikil tilhlökkun og spenna er í loftinu.

Emilía fékk aðeins að prufa "stóru systur" taktana á lítilli frænku sinni henni Kolbrúnu Evu, í síðustu viku, og við látum hér fylgja með eina mynd af þeim fínu samskiptum sem þær áttu. Emilía var voðalega áhugasöm um Kolbrúnu litlu og minntist á það síðast í dag að hún vildi hitta hana aftur. Nú verður spennandi að sjá hvað henni mun finnast um litlu systur en hún er nú þegar búin að lýsa því yfir að hún ætli að "klappa litlu systur og ekki lemja hana" (foreldrunum til mikils léttis). Svo ætlar hún líka að kenna henni að segja ýmislegt, eins og mamma, pabbi, Emilía og neits og játs (já og nei, með nýjum tilbrigðum), fyrir utan það að kenna henni sænsku, að skríða og ganga o.s.frv.