Emilía Þórný og Anna Soffía

miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Jólahvað??

Fyrsti aðventusunnudagurinn kominn og farinn og jólin nálgast óðum. Emilía lét sér fátt um finnast, en fannst mosinn á kertastjakanum mjög spennandi. Hún teygir sig eftir öllu þessa dagana, vill koma við allt og helst borða það! Hún er greinilega mikil bjartsýnismanneskja því hún reynir að ná í allt, jafnvel þótt það sé langt út fyrir hennar "armlengd", en hún er nú ekki mikil sem betur fer. Verður svo ægilega pirruð þegar hún nær ekki.

Annað sem henni finnst gaman að gera er:
Sitja sjálf
Horfa út um gluggann
"Fljúga"
Skoða smekkinn sinn sem er rauður og flottur
Borða hárið á dúkkunni sinni
Segja bababa, dadada, blablabla
Grúfa höfðinu í teppið, eða í peysuna á þeim sem heldur á henni og tala
Sitja í stólnum sínum og borða með okkur Óla
Hlusta á "heyrðu snöggvast snati minn" (mamma syngur)
Æfa sig í að setja snuðið sjálf upp í sig (orðin ansi lunkin)
Sitja í vagninum og horfa á trén og húsin, fólkið og bílana

Henni finnst hins vegar ekki gaman að:
Sofa þegar hún er ekki þreytt
Láta klæða sig í útigalla og flís innandyra
Vera með vettlinga
Geta ekki skriðið
Sitja kyrr á kaffihúsi og mega ekki einu sinni halda á kaffibolla

mánudagur, nóvember 28, 2005

Amma Dísa í heimsókn

Dísa var í heimsókn í nokkra daga og núna vorum við svo heppin að Emilía er orðin nógu dugleg að borða mat og drekka vatn þannig að hún getur farið í pössun. Við notuðum því tækifærið og skildum Emilíu eftir heima með ömmu Dísu á laugardagskvöldinu og að sögn Dísu gekk það eins og í sögu. Dísa kom með dúkku fyrir Emilíu og er það fyrsta dúkkan hennar. Hún (dúkkan), er með blá augu og mikið ljóst krullað hár og Óli var ekki lengi að nefna hana Ingibjörgu, enda ekkert svo frábrugðin Ingibjörgu föðursystur Emilíu. Þetta er líklegast fyrsta dúkkan sem er nefnd eftir henni, eða hvað Ingibjörg?

föstudagur, nóvember 25, 2005

Veik

Við fórum með Emilíu upp á Karolínska Sjukhuset snemma í morgun eftir erfiða nótt. Hún var búin að vera með hita í næstum 3 sólarhringa, vildi ekkert drekka nema stundum vatn úr skeið og svaf óvenjumikið. Vorum farin að hafa áhyggjur af því að hún hefði fengið í eyrun, en eftir skoðun á "barnakuten" sem sýndi að eyru og háls voru í lagi þá var hún greind með svokallaða "tredagarsfeber" eða "exantema subitum" fyrir þá sem eru vel að sér í læknavísindum. Þetta er algengur barnasjúkdómur sem lýsir sér með hita í þrjá daga og roða/útslög á húð í lokin þegar hitinn lækkar. Hún fékk einmitt þennan roða á meðan við vorum á spítalanum... Við erum fegin því að vita hvað er að, hitinn er búinn að lækka og hún er öll að braggast, drakk meira að segja áðan í fyrsta skiptið síðan á þriðjudagsmorgun (fegin er ég, er komin með harðsperrur í hendurnar af brjóstapumpunni). Það var almennilegur barnalæknir sem skoðaði hana, en hjúkkan vakti samt meiri athygli, "hún" var "hann" og með skilti á barminum sem stóð á "Adam, Mr. Sister", algjör brandarakall í rauðum trúðaskóm og hinn hressasti. Við fórum frá spítalanum ánægð með hjúkku og lækni, og Emilía fékk ekkert annað en lítinn plástur á fingurinn eftir blóðprufu.

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Kemst ekkert áfram...

... en smá afturábak. Emilía er orðin ansi leið á því að komast ekki leiðar sinnar. Hún er fljót yfir á maga ef ég legg hana á bakið og svo hefst erfiðið. Með hendur og fætur upp í loft spriklar hún og spriklar og skilur ekkert í því að hún færist ekki úr stað. Hún er greinilega eitthvað að rugla þessu saman við sundtökin. Svo gerir hún líka margar armbeigjur, ýtir sér upp á höndunum og reynir að ýta sér eitthvert, en það gengur heldur ekkert sérstaklega vel. Hins vegar tókst henni einhvern veginn um daginn að mjaka sér út af leikteppinu og afturábak um 2 metra (sjá mynd) og hún var voðalega ánægð með sig eftir það, húrra! Við vonum að þetta fari að takast hjá henni, svo hún verði aðeins sáttari við sig.

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Engin mannafæla

Emilía hefur hingað til ekki sýnt neina tilburði til mannafælni. Á myndinni er hún að kynnast Reyni sem var í heimsókn hér um helgina. Við vonum að hún haldi áfram að vera svona mikil félagsvera, en maður veit vísst aldrei hvenær þessi mannafælni kemur hjá börnum og enn síður hvenær hún vex af þeim.
Litla krílið er annars farið að vera eitthvað erfitt á nóttunni, vildi bara sofa uppí hjá okkur í nótt eftir 3:ja tíma stríð við að svæfa hana aftur og aftur í rúminu og að lokum vagninum, en hún gaf sig ekki stelpan! Við verðum að vera betur undirbúin næst og fyrst og fremst útsofin. Þrekið ekkert mjög mikið kl. 2:30 að nóttu þegar maður veit að maður þarf að vakna kl. 6:30 aftur.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Veltikerling

Emilía er farin að æfa sig í því að sitja, en hún er voðalega völt enn þá og getur ekki setið ein. Einstaka sinnum gleymir hún sér og situr stöðug í nokkrar sekúndur en svo sér hún eitthvað sem hún vill teygja sig eftir og þá er jafnvægið farið. Þetta krefst greinilega mikillar æfingar. Annars vill hún helst standa, finnst gaman að stíga í fæturnar og ef maður reynir að láta hana setjast þá stífnar hún oft upp eins og spýta þannig að það er ómögulegt að láta hana setjast niður. Eins er það þegar maður togar hana upp á höndunum frá liggjandi stöðu þannig að hún setjist, þá gerir hún spýtutrikkið aftur þannig að hún fer upp á fætur í staðinn fyrir bossann.

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Namminamm!

Emilía er farin að borða af bestu lyst. Hún er nú ekki búin að smakka á mörgu og hún hefur hingað til smjattað á öllu að undanskildri heimagerðu kartöflustöppunni minni... sem hún kúgaðist all rækilega á, greinilega ekki rétt áferð á henni og allt of seig eftir að ég var búin að hræra og stappa allt of mikið á meðan ég var að reyna að fullkomna hana. Á myndinni er hún að smakka majspure frá Semper, næst á dagskrá eru kartöflu og gulrótastappan þeirra.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Foreldragrúppa

Á miðvikudaginn fórum við og hittum allar mömmurnar og börnin þeirra frá foreldragrúppunni í vor. Við fórum saman á fræðslufundi með ljósmóður okkar í lok meðgöngunnar og það var alveg svakalega góður hópur. Hef bara hitt tvær þeirra hingað til en núna ákváðum við að hittast allar með krílin og það var mjög gaman. Það urðu 2 stelpur og fjórir strákar sem fæddust í lok maj, byrjun júní, öll svakalega myndarleg :=) Á myndinni fyrir ofan eru nokkur þeirra: Emilía lengst t.v. og svo Theo, Vincent og Douglas.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Frú Barbarú og Herra Strumpur?

Já, við köllum þau Emilíu og Hilmi ýmsum nöfnum, bleikt og blátt, Barbarú og Strumpur, Stor och Liten. Það síðasta á samt varla við lengur, Hilmir er að taka góðan vaxtakipp þannig að þessir 2.5 mánuðir sem munar á þeim fara að strokast út smám saman. Við Begga bíðum spenntar eftir að þau fari að taka meira eftir hvoru öðru. Það kom samt í ljós í síðustu viku að Emilíu finnst Hilmir vera með spennandi eyru og svo hafa þau hjalað við hvort annað nokkrum sinnum.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

5 mánaða - fyrsti grauturinn

Emilía varð 5 mánaða á föstudaginn og þá var ákveðið að hún fengi að bragða á einhverju öðru en brjóstamjólk og varð Nestle hafragrautur fyrir valinu. Það er virkilega kominn tími til þess að hún prófi eitthvað nýtt, hefur starað á eftir matnum sem fer ofan í okkur í meira en mánuð núna og er þar að auki skyndilega farin að vakna á 4 tíma fresti til að drekka á nóttunni. Hún virtist bara ánægð með grautinn og opnaði munninn í hvert skipti sem skeiðin kom fljúgandi. Hefur fengið graut tvö kvöld í röð og sefur aðeins lengur núna.