Emilía Þórný og Anna Soffía

mánudagur, janúar 23, 2006

Fyrsti Kossinn

Í gærkvöldi var ég eins og alltaf að knúsa Emilíu og kyssti hana á kinnina og viti menn, haldið þið ekki að hún hafi gert það sama við mig. Ég var náttúrulega ekki lengi að endurgjalda kossinn og þá kyssti hún mig á kinnina aftur og þetta endurtók hún svo nokkrum sinnum! Mér hefur nú ekki tekist að fá hana til að gera þetta í dag, en ég hlakka til að fá næsta koss, þótt þeir séu dáldið blautir :=)

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Foreldragrúppa

Stelpurnar úr foreldragrúppunni og krílin þeirra komu hingað í kaffi í vikunni. Þessir fundir fara að verða fjörugri og fjörugri. Fyrstu skiptin sem við hittumst gátum við setið allar við borðið og drukkið kaffi og borðað kökur á meðan börnin lágu á bakinu á gólfinu og góndu upp í loft og virtu umhverfið fyrir sér. Í þetta sinn var allt annað uppi á teningnum og við Emilía voru gjörsamlega útkeyrðar þegar allir voru farnir. Það er mikið fjör þegar 6 mömmur og jafnmörg 7 mánaða kríli koma saman til að "fika" eins og maður kallar það að koma saman, drekka kaffi, borða kökur og spjalla hér í Svíþjóð (mjög fínt orð, verð að íslenska það við tækifæri).
Núna fer að sjást verulegur munur á hreyfiþroska barnanna. Vincent, sem er stærstur í hópnum, er sá brattasti, skríður út um allt, sest upp og stendur upp við hluti, gengur með og sleppur meira að segja báðum höndum og vill bara ganga út á mitt gólf, dettur þá auðvitað á hausinn og fer að gráta, já, heimurinn er harkalegur en hann gefst ekki upp! Því má bæta við að mamma hans, Susanne, er ekkert mjög hrifin af þessu, enda gerir hún ekkert annað en elltast við hann og hugga dagana í enda. Tveir í viðbót eru farnir að skríða, þeir Theo og Douglas, svo eru það Lukas og Emilía sem sitja stöðug, eru aðeins varfærnari en frekar fúl yfir því að komast ekki áfram eins vel og hin og að lokum Rebekka sem er sú rólegasta í hópnum, nýfarin að vellta sér, er að æfa sig í að sitja en er að öðru leyti mjög róleg. Spannið er sem sagt breitt og allt þykir þetta "eðlilegt"!
Þrátt fyrir að hópurinn var hér í heila 4klst, þá náðum við ekki mikið að tala saman, því var ákveðið að fara barnlausar út í kvöld!
Á myndinni hér fyrir ofan eru þau Theo og Emilía fremst og Rebekka og Lukas fyrir aftan.

Við erum búin að leggja inn myndir frá Egyptalandi á heimasíðuna.

miðvikudagur, janúar 11, 2006

"Kann sjálf"

Eða öllu heldur "vil sjálf". Emilía er farin að taka um skeiðina þegar maður er að mata hana og vill sem sagt borða sjálf, mér finnst þetta frekar snemmt og mjöög kámugt!! Verð að skaffa blautbúning fyrir bæði hana og mig. Matartíminn sem sagt orðinn viðburðarmeiri og tekur lengri og lengri tíma, bæði vegna þess að Emilía teygir sig eftir skeiðinni, vill skoða innihaldið í smekknum (sem ég loka helst augunum fyrir, bläää!), vill lyfta smekknum svo hann sé fyrir andlitinu og reynir að tyggja þessa litlu bita sem eru í barnamatnum eða vandar sig við að spýta hverjum einasta bita út úr sér....

sunnudagur, janúar 08, 2006

Úr sand í snjó

Í eyðimörkinni einn daginn og vetrarríki þann næsta. Emilía fékk snjóþotu í jólagjöf frá okkur Óla og hún var prufukeyrð í gær í brekku á Gärdet. Hún fílaði þetta vel, sérstaklega þegar hún var komin á góða ferð, þá baðaði hún út öllum öngum af spenningi!

föstudagur, janúar 06, 2006

Sól, sól skín á mig!

Þá eru þessar tvær vikur í sólinni liðnar og við komin heim í algjört vetrarríki. Miklar andstæður fyrir Emilíu að taka inn á einum degi og hún skildi örugglega ekkert í neinu þegar við fórum úr 27 stiga hita og sól í Sharm el Sheik, yfir í -15 gráður og snjó í Stockhólmi. Hefði örugglega orðið eftir í Egyptalandi hefði hún mátt velja. Fannst sólin, sjórinn og sundlaugin algjört æði og hló af kæti þegar hún sá glampandi vattnið og leikandi öldurnar. Svo var heldur ekki amalegt að hafa fullt af fólki í kringum sig til að spjalla við alla daga, og ef ættingjarnir brugðust þá var alltaf einhver myndarlegur Egypti tilbúinn að gantast aðeins með mann. Emilía Þórný lærði snemma að Egyptarnir væri skemmtilegir kallar og fylgdist frekar spennt með þeim, heldur en mömmu og pabba.
Ferðin var í alla staði frábær, í Egyptalandi er margt að skoða og þarf manni ekkert að láta sér leiðast, við náðum að skoða heilmikið, en langar samt aftur til að sjá enn meira. Kórallrifin eru heil draumaveröld út af fyrir sig, eins og að synda í fiskabúri með risastórum gullfiskum í öllum regnbogans litum.
Annars er það helst í fréttum að Emilía fékk skap 28. des. þegar hún skyndilega sýndi að henni líkar ekki þegar hlutir eru teknir af henni sem hún er að leika við. Aldrei áður hafði hún sýnt að henni væri sama, en þarna skyndilega fór hún að háorga ef eitthvað var tekið af henni, og hún hefur haldið því áfram síðan. Nú fer kanski að reyna eitthvað á mann. Spurning hvaða uppeldisaðferð skal velja...