Stelpurnar úr foreldragrúppunni og krílin þeirra komu hingað í kaffi í vikunni. Þessir fundir fara að verða fjörugri og fjörugri. Fyrstu skiptin sem við hittumst gátum við setið allar við borðið og drukkið kaffi og borðað kökur á meðan börnin lágu á bakinu á gólfinu og góndu upp í loft og virtu umhverfið fyrir sér. Í þetta sinn var allt annað uppi á teningnum og við Emilía voru gjörsamlega útkeyrðar þegar allir voru farnir. Það er mikið fjör þegar 6 mömmur og jafnmörg 7 mánaða kríli koma saman til að "fika" eins og maður kallar það að koma saman, drekka kaffi, borða kökur og spjalla hér í Svíþjóð (mjög fínt orð, verð að íslenska það við tækifæri).
Núna fer að sjást verulegur munur á hreyfiþroska barnanna. Vincent, sem er stærstur í hópnum, er sá brattasti, skríður út um allt, sest upp og stendur upp við hluti, gengur með og sleppur meira að segja báðum höndum og vill bara ganga út á mitt gólf, dettur þá auðvitað á hausinn og fer að gráta, já, heimurinn er harkalegur en hann gefst ekki upp! Því má bæta við að mamma hans, Susanne, er ekkert mjög hrifin af þessu, enda gerir hún ekkert annað en elltast við hann og hugga dagana í enda. Tveir í viðbót eru farnir að skríða, þeir Theo og Douglas, svo eru það Lukas og Emilía sem sitja stöðug, eru aðeins varfærnari en frekar fúl yfir því að komast ekki áfram eins vel og hin og að lokum Rebekka sem er sú rólegasta í hópnum, nýfarin að vellta sér, er að æfa sig í að sitja en er að öðru leyti mjög róleg. Spannið er sem sagt breitt og allt þykir þetta "eðlilegt"!
Þrátt fyrir að hópurinn var hér í heila 4klst, þá náðum við ekki mikið að tala saman, því var ákveðið að fara barnlausar út í kvöld!
Á myndinni hér fyrir ofan eru þau Theo og Emilía fremst og Rebekka og Lukas fyrir aftan.
Við erum búin að leggja inn myndir frá Egyptalandi á heimasíðuna.