Barnið virðist ekkert á því að koma í heiminn. Skiljum ekki í því að það nenni að klessast þarna í maganum, því það er ekki eins og plássið sé að aukast. Mér fannst krílið vera eitthvað rólegt á þriðjudaginn og fékk því að koma upp á Karolínska í smá tjekk. Þar var ég sett í hjartarita í 50min og fylgst með samdráttum. Það sást þá að ég var með reglulega samdrætti, en þeir eru nú ekki sterkir. Barnið var í fullu fjöri á meðan að á þessu stóð, hef ekki séð það hreyfa sig svona mikið í lengri tíma, er það ekki týpískt! Læknirinn sagði að ég væri komin með 2cm í útvíkkun þannig að eitthvað er nú líkaminn að undirbúa sig og svo var hreyft við belgnum í von um að eitthvað færi af stað. Var svo andvaka alla nóttina úr því að ég var svo spennt að bíða eftir að verkirnir myndi aukast... en þeir duttu niður um morguninn eins og alla aðra morgna... og Óli fór í vinnuna, enn einn daginn, eftir að hafa spurt hvort ég héldi að það væri eitthvað að gerast.
Á morgun kl. 8:00 (hef ekki vaknað svo snemma í 3 vikur) eigum við svo tíma í "överburenhetskontroll" á Karolínska. Þá verður aftur fylgst með hjartslætti, samdráttum, farið í sónar, athugað hvort blóðflæði í naflastrengnum sé nógu gott, tjekkað á útvíkkun og hreyft við belgnum... væri ekki bara minna mál að setja mig af stað?? Við óþolinmóðu foreldrarnir erum farin að hlakka ægilega til þess að hitta þennan þolinmóða einstakling!
"Moster" og bráðum Dr. Sonja bað um bumbumyndir, hér eru þær:
41 vika og 5 dagar. Komin með fína "hyllu".