Emilía Þórný og Anna Soffía

sunnudagur, apríl 17, 2005

35 vikur og 2460gr

Við létum eftir okkur að fara í auka sónar á föstudag. Við fengum allan sónarinn á myndbandi með okkur heim og þar að auki nokkrar ljósmyndir af yndinu. Við gátum séð hluta af andlitinu og það lítur út fyrir að krílið erfi þykkar varir Óla og ekki varaleysið mitt. Samkvæmt ljósmóðurinni var allt eins og það á að vera og barnið mældist 2460gr, eða 5% undir "meðalbarni" í viku 35 sem fæðist 3500gr eftir 40 vikna meðgöngu. Það virðist því sem martraðir mínar um risabarn eigi sér enga stoð í raunveruleikanum og ég get því farið að slaka á.

sunnudagur, apríl 10, 2005

34 vikur



Tíminn líður hratt og 34 vikur komnar, ekki nema um 6 vikur eftir. Samkvæmt síðustu mæðraskoðun hefur maginn ekki vaxið mikið sl. 2 vikur en okkur sýnist það nú ekki vera rétt, finnst hann vera alveg nógu stór og á sem sagt eftir að stækka enn meir. Við höldum bara að krílið hafi bara verið að stríða okkur eitthvað í mæðraskoðuninni og látið lítið fyrir sér fara, mældist því rétt undir meðalkúrvunni í það sinn.

Fengum að horfa á myndband með þremur fæðingum sl. föstudag í foreldrafræðslunni og við brögðin voru mismunandi, sumir felldu tár á meðan öðrum fannst aðallega óþægilegt að horfa á þetta (Óli var í hópi þeirra fyrrnefndu en Íris í hópi þeirra síðarnefndu). Við fengum að sjá sprautur og önnur tæki og tól sem eru notuð við fæðingar. Íris spurði svo hvort Karolínska byði eingöngu uppá hvíta sjúkrasloppa en svo er ekki, Karólínska er líka með bleika sjúkrasloppa. Nú er Íris mikið að spá í hvort hún eigi að velja þegar á hólminn er komið....

mánudagur, apríl 04, 2005

Foreldrafræðsla

Sl. föstudag (1. april) var komið að fyrsta tímanum í foreldrafræðslunni. Það tekur samtals 8 klst. að uppfræða verðandi foreldra hér í Sundbyberg og munum við mæta í tvo tíma í senn þrjá föstudaga í viðbót áður en við útskrifumst. Það er hún Gunilla ljósmóðir sem heldur í tímana og við erum 7 pör sem öll búum í sama hverfinu og eigum von á okkar fyrsta kríli á tímabilinu frá 15. maj til 6. júní ef ég man rétt. Við mættum aðallega til að hitta þetta fólk og ef maður verður heppin er það kanski einhver þar sem maður getur farið í göngutúra með þegar maður skyndilega á að fara að eyða/verja dögunum heimafyrir með litlum unga.

Í þessum fyrsta tíma var stelpum og strákum skipt í tvo hópa og við fengum að ræða vonir og væntingar í sambandi við fæðingu og tímann þar á eftir. Síðan vorum við sameinuð aftur og þetta rætt aðeins betur. Mér fannst þetta fara heldur hægt af stað en tíminn leið hratt og ég hef sjaldan hlegið jafnmikið að fæðingasögum Gunillu (sjáum til hvort mér verði hlátur í huga þegar kemur að þessu:=). Annars var það í raun bara ein spurning sem brann á mér en ég þorði ekki að bera hana fram: "hvað getur maður beðið lengi með að fara í þennan hræðilega sjúkraslopp í fæðingunni?" og "Má eiga í peysusetti og ... uhumm buxum!!". Óli hlær bara að þessari vitleysu, en hann heldur náttúrulega að ég sé að grínast, en mér er háalvara. Í næsta tíma fáum við að sjá "fæðingarmyndbönd" og þá á hann eftir að átta sig á því hvað ég er að tala um.

"Íris að æfa sig", með litlu Astrid, dóttur Åsu og Fredriks, 8 vikna.