Heima
Þá er "litla systa" komin heim síðan á laugardag og hún hefur sýnt sama lundarfarið áfram eins og frá fæðingu en hún lætur fátt trufla svefn- og drykkjartíma, en af þeim tveimur er svefninn með vinninginn enn sem komið er. Það er því ekki óvanalegt að gestir fái ekki að sjá stúlkuna með opin augun því hún sefur sig einfaldlega í gegnum heilu heimsóknirnar þótt verið sé að halda á henni og færa á milli vöggu og skiptiborðs. Látum því fljóta með eina mynd af henni vakandi að virða fyrir sér kusu, en hún er greinilega athygliverð, enda með spena ;=)
Emilía stóra systir er ofsalega stolt af þeirri litlu og alveg sérlega góð við hana, vill auðvitað aðstoða við hin ýmsu verk og segir "allt í lagi litla systir" þegar hún grætur. Hún er einna helst spæld með að ég (Íris) geti ekki borið hana eins og venjulega en það kemur allt saman síðar. Á myndinni hér fyrir ofan er hún að sýna vinkonum sínum og nágrönnum, Rósu og Birnu, nýja fjölskyldumeðliminn en þær gáfu sér góðan tíma til að virða hana fyrir sér, sérstaklega Rósa sem var ofsalega áhugasöm um þetta litla kríli enda elst í hópnum.