Það hefur aldeilis dottið botninn úr blogginu okkar og er nú liðinn tæplega einn og hálfur mánuður síðan við blogguðum síðast. Það hefur nú margt gert á þessum tíma. Emilía Þórný er byrjuð á leikskólanum Lundi og hefur verið þar núna í mánuð. Þetta hefur gengið bara ágætlega hjá henni, hún grætur þó aðeins þegar við skiljum við hana á morgnana en samkvæmt fóstrunum þá er það mest kurteisisgrátur fyrir okkur foreldrana. Á leikskólanum eru 30 börn og flest á hennar aldri sem er mjög skemmtilegt fyrir hana. Hún á sjálfsögðu sína uppáhaldsfóstru sem að við vonum að sé mætt þegar við komum með Emilíu á morgnana, þá er viðskilnaðurinn auðveldari.
Emilía hefur ekki leyft foreldrum sínum að sofa mikið í september og vorum við alveg að gefast upp, hún vaknaði á hálftíma til klukkutíma fresti stundum og var reið og vildi ekki sofa. Við vissum ekkert hvað var í gangi með hana fyrr en á föstudaginn þegar Íris sótti hana á leikskólann. Þá kom í ljós að hún var látin sofa tvisvar á dag þar, það var víst venjan með nýju börnin þar. Þá fór þetta að skýrast með svefnleysið heima við, hún var hreinlega búin að sofa það mikið yfir daginn að hún var bara ekkert svo þreytt á kvöldin og næturnar. Þessu var snarlega breytt og stúlkan sefur eins og ljós núna, okkur til mikillar gleði.
Af helstu framförum Emilíu að segja þá er hún farin að tala meira, hermir eftir hundi, ketti, uglu, hesti og kú. Hún er þó ekki farin að ganga ennþá, hún ætlar að vera vel undirbúin fyrir það. Hún stendur þó alveg sjálf og er meira segja farin að standa uppi í rúmi hjá okkur að æfa jafnvægi á dýnunni. Hún tók 1/2 skref í gær á dýnunni en það telst nú kannski ekki með.