28 vikna skoðun
Sl. fimmtudag var komið að þriðju ljósmæðraheimsókn til Gunillu "barnmorsku". Við rekum hana í vinnuna extra snemma þegar kemur að okkur, svo Íris nái lestinni til Vasteras kl. 8. Hún er svo almennileg að leyfa okkur að koma til sín kl. 7:30 og svo er farið rösklega í gegnum allar mælingar og pælingar, ekki tími fyrir neitt dúttl, og er það bara ágætt. Það hafði lítið breyst frá því síðast, annað en legbottnshæðin sem hafði aukist um 3cm í 27cm og fylgir þá nákvæmlega meðalkúrvunni enn sem komið er. Gunilla reyndi svo að þreyfa aðeins á fóstrinu og þóttist geta staðsett höfuðið sem hún hélt að snéri skáhallt niðurávið í skoðuninni. Krílið lét svo aðeins vita af sér í öllu þessu hnoði með einu góðu sparki beint í hlustunarpípuna þegar hún var að reyna að hlusta eftir hjartslætti. Hjartslátturinn mældist 148 slög/min samkvæmt nákvæmum talningum Óla.
Írisi líður annars vel og finnur lítið fyrir óléttunni fyrir utan skemmtilegar hreyfingar hjá bumbubúanum. Myndin hér fyrir neðan var tekin í dag (28vikur+2dagar).