Fréttir af Önnu Soffíu
Það er löngu kominn tími til að setja inn fréttir af Önnu Soffíu. Hún er nýlega farin að velta sér og tekur núna svona "veltisyrpur" þar sem hún veltir sér stanslaust. Hún er þó duglegri að velta sér af baki yfir á maga heldur en öfugt og stundum vill hún láta snúa sér við aftur yfir á bak svo hún geti velt sér enn einu sinni yfir á maga. Verst er að hún er orðin svo snögg að snúa sér og svo óþolinmóð að fá að snúa aftur að ekki nennir hún að vera lengi á maganum þegar hún er í þessum gír.
Skvísan er farin að fá graut og eitthvað mauk, en finnst samt mjólkin enn þá best og mig grunar að Óli verði bara að taka þetta fastara taki með matinn þegar ég verð ekki lengur heimavið en það styttist óðum í að ég fari að vinna aftur. Önnu Soffíu finnst mikið sport að sitja við borðið með okkur og sérstaklega gaman er þegar stóra systir matar, en það gerði hún í fyrsta skiptið í gær og gekk ótrúlega vel, enda svo vandvirk !
Svo las ég fyrir hana fyrstu bókina í dag (byrjaði eflaust á því fyrr með Emilíu), en það var hin sívinsæla "Unginn kvakar" sem Emilía fékk frá Rögnu og fjölsk. og hefur Emilía enn þá svolítið gaman af henni sjálf (sérstaklega þegar hún er mjög þreytt). Anna Soffía hafði bara gaman af lestrinum, enda lesið með mikilli innlifun :=) Það liggur við að viðkvæm, mjólkandi kona eins og ég tárist þegar enginn vill leika við gula ungann. Þetta er mikil átakasaga sem endar þó vel, mæli með þessari bók á hvert heimili!
Önnu Soffíu finnst annars skemmtilegast að:
- velta sér
- naga eitthvað gott dót (klæjar í góminn)
- "spjalla" við alla þá sem vilja spjalla við hana
- horfa á sig í spegli
- borða graut við borðið með fjölskyldunni
- kúra í rúminu hjá stóru systur
- frussa
- skrækja