Emilía Þórný og Anna Soffía

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Strákarnir með stelpurnar

Nú erum við tveir félagarnir í feðraorlofi með stelpurnar okkar. Maggi með Birnu sína sem er 3 vikum yngri en Emilía og svo við Emilía. Stelpurnar eru loksins farnar að sjá hvor aðra og leika sér saman, alla vega stundum. Í gær frömdu þær svo fyrsta sameiginlega prakkarastrikið sitt. Við Emilía fórum í heimsókn til Magga og Birnu í gærmorgun og við Maggi fórum aðeins að leita að bílum á Internetinu, svona eins og feður í feðraorlofi gera. Allt í einu tökum við eftir að það er orðið hljótt í íbúðinni. Það þýddi aðeins eitt, að stelpurnar voru að gera eitthvað sem þær máttu ekki gera. Við kíkjum fram og þær voru hvergi sjáanlegar. Eftir smá leit þá finnum við þær úti á svölum þar sem þær eru búnar að finna pakka með stórum krítum og tæta hann í sig og það var krít út um allt. Í fötum, andliti, höndum, hári, ofl. Það var þvílíkt stuð hjá þeim.
Nú fer feðraorlofinu senn að ljúka og aðeins þessi vika og sú næsta eftir. Þessir sex mánuðir hafa liðið ótrúlega hratt. Emilía byrjar svo á leikskólanum á mánudaginn 28. ágúst og er þá formlega orðin skólastelpa. Við vonumst til að hún fari nú fljótlega að ganga eftir það enda verða væntanlega margar fyrirmyndir á leikskólanum Lundi. Hún er nú farin að sleppa sér svona til að æfa jafnvægið en neitar alveg að ganga nema að það sé haldið í hendurnar á henni.
Emilía er orðin mjög dugleg að borða sjálf og er hérna smá myndasería af henni í hádegisham
Kv. Óli

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Sumarmyndir

Nú er verslunarmannahelgin liðin og þar með sumarið búið. Það er því við hæfi að setja upp nokkrar myndir frá "liðnu sumri" á myndasíðuna okkar :-) Þar eru myndir af aðallega Emilíu að skemmta sér í fríi í Svíþjóð, Danmörku og á ferð um Ísland. Það fer lítið fyrir fullorðnu fólki á myndunum og biðjumst við velvirðingar vegna þess en Emilía Þórný er einfaldlega svo yndislegt og fallegt myndefni, alla vega finnst okkur foreldrum hennar það.