Emilía Þórný og Anna Soffía

sunnudagur, desember 12, 2010

Aðventan

Stelpurnar eru komnar í mikið jólaskap - jólaandinn fór á eitthvert "æðra stig" í gær þegar ljóst var að Stekkjastaur myndi koma til byggða um nóttina. Emilía ákvað að freista þess að setja eitt "par" af skóm í gluggann, var mikið að spekúlera og ákvað að lokum að prófa. Hún uppskar þá bréf frá stekkjastaur - það var skemmtilegt og nú eru enn tveir skór í glugganum - rökstuðningurinn fyrir því er sá að þá myndi e.t.v. næsti jólasveinn "ruglast" og gefa í þá báða... haha. Annars er farið að örla á svolitlum efa hjá þeirri eldri en hún spurði mig alvarleg á svip í morgun þegar við biðum eftir að Hurðaskellir kæmi í viðtal á Rás 2 "mamma, eru jólasveinar í alvöru til?". Við þetta bætast svo endalausar spurningar um hvernig hann komist inn, hvar hann kaupi gjafirnar (æjæj), hver borgi fyrir þær, hvernig hann nái að fara til hennar og Magnúsar í Svíþjóð sömu nóttina, af hverju mamma og pabbi fái ekki í skóinn og svona má lengi telja.
Læt fylgja tvær myndir af stúlkunum sem voru teknar heima um síðustu helgi. Hari á heiðurinn af myndunum.

fimmtudagur, desember 03, 2009

Systurnar


Ein mynd af systrunum í Lofnarbrunni 4 frá því í nóvember. Það var gerð tilraun til jólakortamyndatöku en þessi eina "rétta" mynd lét standa á sér eitthvað.

sunnudagur, mars 15, 2009

Anna Soffía 1 árs


Þá er nú orðið rúmt ár síðan hún Anna Soffía okkar kom í heiminn en hún varð 1. árs núna þann 5. mars. Ömmur og afar komu í heimsókn á afmælisdaginn og fékk sú stutta að blása á fyrsta afmæliskertið með dyggri aðstoð stóru systur.

Svo var haldin afmælisveisla fyrir vini og vandamenn á sunnudeginum eftir afmælið og var Anna Soffía mjög ánægð með veisluna sína og gjafirnar. Hún var mjög hissa yfir afmælissöngnum og naut þess til hins ýtrasta að vera miðpunktur athyglinnar. Hún þurfti smá aðstoð við að opna alla pakkana og þá voru nú margar smáar hendur tilbúnar til að aðstoða.

föstudagur, ágúst 29, 2008

Fréttir af Önnu Soffíu

Það er löngu kominn tími til að setja inn fréttir af Önnu Soffíu. Hún er nýlega farin að velta sér og tekur núna svona "veltisyrpur" þar sem hún veltir sér stanslaust. Hún er þó duglegri að velta sér af baki yfir á maga heldur en öfugt og stundum vill hún láta snúa sér við aftur yfir á bak svo hún geti velt sér enn einu sinni yfir á maga. Verst er að hún er orðin svo snögg að snúa sér og svo óþolinmóð að fá að snúa aftur að ekki nennir hún að vera lengi á maganum þegar hún er í þessum gír.
Skvísan er farin að fá graut og eitthvað mauk, en finnst samt mjólkin enn þá best og mig grunar að Óli verði bara að taka þetta fastara taki með matinn þegar ég verð ekki lengur heimavið en það styttist óðum í að ég fari að vinna aftur. Önnu Soffíu finnst mikið sport að sitja við borðið með okkur og sérstaklega gaman er þegar stóra systir matar, en það gerði hún í fyrsta skiptið í gær og gekk ótrúlega vel, enda svo vandvirk !
Svo las ég fyrir hana fyrstu bókina í dag (byrjaði eflaust á því fyrr með Emilíu), en það var hin sívinsæla "Unginn kvakar" sem Emilía fékk frá Rögnu og fjölsk. og hefur Emilía enn þá svolítið gaman af henni sjálf (sérstaklega þegar hún er mjög þreytt). Anna Soffía hafði bara gaman af lestrinum, enda lesið með mikilli innlifun :=) Það liggur við að viðkvæm, mjólkandi kona eins og ég tárist þegar enginn vill leika við gula ungann. Þetta er mikil átakasaga sem endar þó vel, mæli með þessari bók á hvert heimili!

Önnu Soffíu finnst annars skemmtilegast að:
- velta sér
- naga eitthvað gott dót (klæjar í góminn)
- "spjalla" við alla þá sem vilja spjalla við hana
- horfa á sig í spegli
- borða graut við borðið með fjölskyldunni
- kúra í rúminu hjá stóru systur
- frussa
- skrækja

þriðjudagur, ágúst 26, 2008

Með stjörnur í augum...


Emilía var eins og maður segir á útlensku “starstruck” á laugardag eftir Latabæjarhlaupið, en hún var svo nösk að sjá Íþróttaálfinn sjálfan álengdar í lok skemmtanahaldsins og heilsaði auðvitað upp á hann. Emilía sem aldrei hefur viljað koma nálægt jólasveinum eða öðrum búningaklæddum furðufuglum spjallaði við þennan landsþekkta orkubolta í bláa gallanum og hreyfði engum mótmælum þegar hann tók hana upp og dáðist af nýja verðlaunapeningnum. Við náðum því þessum fínu myndum af þeim saman en sú stutta hefur verið uppveðruð síðan yfir þessum merkilega fundi og segir öllum frá sem vilja heyra ! Allur Reykjavíkur maraþon og Menningarnætur dagurinn var annars hinn besti, að undanskildum nokkrum góðum skúrum. Dagurinn snérist að mestu um Latabæjarhlaupið enda mikið um dýrðir þar fyrir 3ja ára skvísu. Emilía hljóp sinn fyrsta Latabæjarhring og sagðist ætla að hlaupa annan “á morgun” áður en hún fór að sofa. Svo dreymdi hana eflaust Íþróttaálfinn, Sollu stirðu og Skoppu og Skrítlu. Eftir að hafa skilið að stelpur væru “sollur” og strákar “íþróttaálfar” eftir talsverð mótmæli um tíma, þá er hún núna á báðum áttum aftur og segist vilja vera íþróttaálfur. Þessi kynskipti heimur er stundum meira en lítið skrítinn fyrir lítið fólk.
Anna Soffía fylgdi systur sinni á þennan viðburð, en hélt sig í vagninum allan tímann, enda ekki út farandi í þessa rigningu og rok.... ;=)

þriðjudagur, maí 27, 2008

Nýjar myndir

Þá erum við búin að uppfæra myndasíðuna

mánudagur, apríl 07, 2008

Anna Soffía Ólafsdóttir


"Litla systir" var skírð Anna Soffía ídag og nú er að venjast nýja nafninu og muna að nota það í stað allra hinna nafnanna sem hún hefur hlotið á meðan beðið var með að tilkynna hið eiginlega nafn. Hún hefur verið títtnefnd "litla systir", "litla", "lúllhildur" og "snúllhildur", en eins og Svíar segja "kärt barn har många namn" og það á svo sannarlega við hér.
Séra Ólafur Jóhannsson skírði stúlkuna hjá ömmu Dísu og var bæði skírn og veislan haldin þar. Skírnarvottar voru þær Sonja og Ingibjörg en þær bera nú ábyrgð á kristilegu uppeldi þeirra systra, Emilíu og Önnu Soffíu.
Emilía stóð sig með prýði, stóð alveg grafkyrr hjá okkur á meðan á skírninni stóð en tók þó fram eftir skírnina að hún hefði ekki sungið (alltaf jafnheiðarleg :=). Hún er alltaf ljúf og góð við litlu systur sína, segir "svona, svona litla systir, ekki gráta, ég er hjá þér" þegar hún grætur og ef hún heldur áfram að gráta er það endurtekið. Ef gráturinn er hávær, þá næstum kallar hún þetta, svo systirin heyri nú örugglega í sér. Um daginn sagði hún svo þegar Óli var að ganga um gólf með Önnu Soffíu grátandi: "Svona, svona litla systir, ekki gráta, þú ert hjá pabba, pabbi er skemmtilegur" :=)